Fara skal til Lankawi!
Við fengum vikufrí í skólanum og ákváðum að skella okkur á eyjuna Lankawi sem er rétt við landamæri Tælands en tilheyrir Malasíu. Við erum alltaf svo skipulögð í þessum málum; fórum á mánudaginn og keyptum rútumiða fyrir þriðjudagsmorgun og bókuðum svo hótel á leiðinni. Lentum í sömu rútu og Ágústa og nokkrir krakkar frá Kenya sem hún fór með hingað og náðum hóteli á sömu strönd og þau. Fengum lítinn góðan kofa, Seaview 101, sem var á ströndinni og sváfum við eins og börn við sjávarniðinn með tveimur eðlum og einum krabba sem var þó fyrir utan hurðina þar sem honum var ekki hleypt inn. Sökum gíurlegs undirbúnings fyrir fríið var aðeins laust á hótelinu í tvær nætur og eiginlega ALLT annað uppbókað út vikuna svo við vorum rosalega heppin að ná síðasta herberginu á hóteli hér rétt hjá í morgun og flytja okkur yfir!
Núna er sem sagt allt vitlaust í ferðamannabransanum þar sem "jólin" eru komin í Malasíu, þ.e. Hari Raya sem eru dagarnir sem taka við eftir Ramadan sem er tímabil 30 daga föstu. Nú eru múslimarnir búnir að fasta og snæða nú jólamat og syngja (mjög skondin) jólalög (heyrðum m.a. Jingle Bells þar sem var búið að breyta textanum í Hari Raya eitthvað á Bahasa Malay) og hafa það gott með fjölskyldum sínum.
Við leigðum okkur bíl og keyrðum hringinn í kringum eyjuna í dag og í gær. Fórum meðal annars í ótrúlega rómantíska og huggulega siglingu með fjórum Indverjum. Við sigldum upp að helli sem við löbbuðum í gegnum - þar var að finna rosalega margar leðurblökur og apa sem neyddi mig til að afhenda gosdrykkinn minn! Þjófar og ekkert annað! Þar á eftir var gefið í á speedbátnum og ferðinni haldið í fiskeldis-eitthvað þar sem við fengum að sjá stingray og alls kyns skemmtilega fiska og krabba. Það magnaðasta í siglingunni var þó "eagle feeding" þar sem bátagæinn drap nokkuð marga fiska og lokkaði með því tugi ef ekki hundruðir af örnum sem komu til okkar til að næla sér í bita.
Í dag erum við meðal annars búin að labba upp 600 tröppur á fjalli upp að ótrúlega fallegum fossi og "seven wells" sem honum fylgja. Fyrir ofan og neðan fossinn var hægt að renna sér á milli steinanna og synda í náttúrulegu laugunum - alveg eins og í survivor og bíómyndunum!! Myndir segja meira en þúsund orð eins og venjulega - hendum þeim inn þegar við komum heim.
Á morgun ætlum við svo að vera í fríi og hanga á ströndinni í hengirúmi og lesa bók...og gera EKKERT annað. Heimferð verður svo líklegast á laugardaginn.
Við höldum áfram að vera fórnarlömb krónunnar eins og allir aðrir klakamenn - en ætli við hérna hinum megin getum ekki talið okkur frekar heppin að geta skotist í svona paradís fyrir sviðakjamma og súperdós þrátt fyrir allt sem er að gerast! Þó fara skólagjöld og fleira hækkandi....pffff....þetta verður eflaust með síðustu helgarferðunum miðað við allt sem er að gerast!
Góða helgi allir saman
3 comments:
vá hvað helgarferðin ykkar hljómar æðislega :-)
maður sér ekki fram á að fara neitt svoleiðis frá íslandi nema að kaupþing byrji að borga starfsfólki í evrum!
hlakka til að sjá myndir :-)
Mikið afskaplega væri maður til í að vera þarna með ykkur í afslöppun!!! Ætliði ekkert að skella ykkur til Koh Lipe?
kv. Andri
Já, þessi afslöppun var sko ekki af verri kantinum!
Nei...fórum ekki yfir til Lipe af því að það var svo mikið vesen að komast yfir svona á low season. Í nóvember fara ferjur beint yfir og voða þægilegt...
svo leit líka út fyrir að veðrið ætlaði að vera úber leiðó og við hefðum víst geta fest okkur dálítið á eyjunni, hehe...svo við kíkjum þangað áður en við förum heim ef tími gefst!
Post a Comment