Apr 20, 2008

Pulau Penang

Eins og þið vitið þá skelltum við okkur á eyjuna Penang á mánudaginn og komum heim í dag - laugardag. Ferðin okkar var í einu orði sagt æðisleg.....

Penang er sem sagt eyja - sem er samt tengd meginlandinu með 13 km steyptri brú. Einnig er hægt að taka ferju yfir sem tekur aðeins um 10 mínútur..hún er ókeypis frá eyjunni og á meginlandið en kostar um 25 krónur frá meginlandi og yfir. Á Penang búa hvorki meira né minna en 1,5 milljón manns- flestir kínverjar. Eyjan er rosalega nálægt landamærum suður-Tælands og tekur aðeins um 2 tíma að taka ferju frá Penang og yfir á malasísku eyjuna Pulau Lankawi - þá eyju sem er næst á dagskrá í ferðalögum okkar. Við vorum að spá í því að fara þangað í vikunni en Penang var bara svo skemmtileg að Lankawi verður að bíða betri tíma...

Við skelltum okkur í lestina frá Kuala Lumpur og tók sú ferð 7 tíma (9 með seinkunn) og var hin huggulegasta. Við mættum til Butterworth og tókum ferjuna þaðan og yfir til stærstu borgar Penang - Georgetown. Vorum í korter að finna fínasta hótel (Hotel Continental) á Jalan Pinang (alveg í miðbænum) þar sem við gistum á 17. hæð með útsýni yfir ströndina.

Við skoðuðum elstu kirkjuna í Malasíu, kínverskt musteri (taoism), "snake temple" þar sem var að finna lifandi snáka inni í kínversku musteri og sáum hindú musteri og moskvur í tonnatali. Við fórum einnig á flóamarkað þar sem Vala nældi sér í tvær leðurtöskur á undir 100 kallinum, night market þar sem var fjárfest í nokkrum vel völdum hlutum og day market. Little India var smá hverfi þar sem mátti finna alls kyns indverskt skart og svo var komið við í verslunarmiðstöð (aðallega til að kæla sig niður þegar Óskar var kominn nálægt því að fá sólsting). Þess á milli var því tekið rólega í sundlauginni uppi á hóteli.....setið í kaffi með bók í hönd....mmmm

Einnig leigðum við bíl og keyrðum hringinn í kringum eyjuna. Fórum meðal annars á "butterly farm" þar sem við vorum umkringd um 4000 fiðrildum...þar voru líka snákar, skjaldbökur, tarantúllur og skemmtileg skordýr. Sáum hóp af villtum sætum öpum í afslöppun í hótelgarðinum hjá Holiday inn - og komum við í Craft Batik - litlu húsnæði þar sem fólk var að búa til skreytt efni og fleira frá grunni í höndunum.

Á föstudaginn ákváðum við að flýja Georgetown og færa okkur aðeins um set. Fundum okkur hótel á Batu ferringhi - sem er gamall hippabær - vinsæll um 1970. Túrisminn var aðeins meira áberandi þar - verið að selja vindsængur og "spánar" dót - hægt að fara á fjórhjól á ströndinni og sjósleða..hestbak o.s.frv. En um leið og við keyrðum aðeins niður strandlengjuna vorum við tvö ein í heiminum og ekki manneskju að sjá! Draumur í dós.....



Að venju var ég fórnarlamb bitanna - safnaði að mér eins og 10-15 (jújú, ekki slæmt miðað við vanann hér) og af þeim voru um 7 sem ég fékk í lestinni á leiðinni! Ég er greinilega bara svona miklu girnilegri heldur en Óskar....einnig slátraði ég óboðnum gesti - hr. kakkalakka - sem læddist inn í hótelherbergið okkar. Vasaljós og kröftugt pöddusprey - + kaffibolli björguðu kvöldinu...ussussuss

Hápunktur ferðarinnar var vissulega þegar við tókum pit stop í vatn og kók og kínverjinn sem afgreiddi Óskar spurði...."You are Japanese, rigth?". Hann ætlaði ekki að trúa því að Óskar kæmi í alvörunni frá Íslandi...en ekki frá Japan!

og já...yfir morgunmatnum einn morguninn var Óskar að lesa grein um mann sem þjáist af elephantsiasis (fílabeinsveikin segjum við heima?). Síðdegis þann dag enduðum við göngutúrinn okkar úti á höfn - mjög óvart í mjög local hverfi. Fólkið þarna bjó liggur við úti í sjó í hræðilega hrörnuðum húsum. Flestir voru með opið inn til sín - sátu á gólfinu við hliðina á einni viftu eða að glápa á imbakassann sem sumir áttu þó. Þar sjáum við einmitt þennan umrædda mann....með svo ofvaxna löpp að það var alveg hræðilegt. Okkur til lítillar gleði...sáum við tvo aðra einstaklinga (væntanlega) með sömu röskun - einn með svona auka andlit framan á sér og annar með sama fót-issue.

Penang er í raun sú Malasía-sem við héldum að við værum að flytja til. Menningin þar er töluvert öðruvísi en það sem maður finnur hér í Puchong eða í Kuala Lumpur. Margar mismunandi trúr og þjóðir koma saman á mjög litlum stað - og ná allir þar að búa saman í sátt og samlyndi. Fátækt er mun meira áberandi þarna og gamlir tannlausir kínverjar á hjóla-leigubílum eru á hverju horni ... fullt af skemmtilegum hlutum að sjá og mörkuðum o.s.frv.

Við mælum hiklaust með þessari eyju....þarna er hægt að slaka á, fara á litlar eyjur í kring, versla, fara á flóamarkaði og næturmarkaði og næla sér í skemmtilegan varning - og kíkja á næturlífið fyrir þá sem vilja. Allt á einum stað.

En myndir segja meira en þúsund orð að venju...og erum við svoleiðis búin að hrúga þeim inn hér á vinstri hönd!

Ég vona að þið hafið notið vikunnar jafn vel og við...

2 comments:

Anonymous said...

Ohh þetta hefur verið yndisleg lífsreynsla.. það er svo gaman að skoða myndirnar hjá ykkur..þið eruð svo dugleg að gera skemmtilega hluti...en varðandi þennan fæðingargalla Vala mín þá get ég sagt þér að mér var hent úr sætinu þegar ég var 13 ára og Óskar var látinn vera co-pilot..einungis 9 ára sökum þess að systir hans var haldin þessum sama fæðingargalla (enda rata ég að Kringlunni ;))
Luv og sakna ykkar
AG

Anonymous said...

Vá hvað ferðin hljómar vel. Þið hafið aldeilis náð að sjá margt á stuttum tíma. Hafið það gott elskurnar og passið ykkur á helvítis erkióvininum; MOSKÍTOFLUGUM!!
Sjitt hvað Oskar er ekki japanskur i utliti... :)

Sunna a Miami